Umferðarreglur í lofti

Posted on August 14, 2013

Endrum og sinnum gerist það að einstakir svifvængjaflugmenn bera það upp að umferðarreglur í lofti séu ekki virtar sem skyldi. Það geta vitaskuld legið margskonar ástæður fyrir því en oftast eru þar á ferð nýliðar sem standa enn ekki alveg klárir á helstu umferðarreglum. Mest hefur borið á þessum umkvörtunum eftir flug í „soaring“ aðstæðum t.d. í Hafrafelli.

Þetta eru þó ekki einu aðstæðurnar sem krefjast þess að svifvængjaflugmenn kunni og virði reglur sem miða að því að fleiri en þeir geti flogið um á öruggan hátt. Einnig kemur til flug í hitauppstreymi þar sem flugmenn nýta sér hitauppstreymisgeira eða „bólur“.

Síðast en ekki síst eru það svo umferðarreglur sem standa í samhengi við annarskonar loftför, s.s. mótordrifin loftför og atvinnuflug. Hér verður sjónum hinsvegar beint að umferðarreglum meðal svifvængja- og svifdrekaflugmanna. Öðrum reglum verða svo gerð skil í annari grein.

Stækkandi sport kallar á aukinn aga

Nýliðun í svifvængjasportinu hefur aukist nokkuð síðustu ár. Það er af sem áður var að allir fimm svifvængjaflugmennirnir þekktust og gætu „soarað“ hafgoluna í Hafrafelli á sama tíma. Nú er fjöldinn orðinn slíkur að stundum er þröngt á þingi í léttum aðstæðum í Hafrafelli. Auk þess hefur verið komið upp virku starfi á landsbyggðinni þar sem flugmenn fljúga í litlum eða engum tengslum við flugmenn í bænum.

Í þessu ljósi er orðið mikilvægt að allir sem fljúga svifvængjum kunni og fari eftir umferðarreglum þegar flogið er innan um aðra svifvængjaflugmenn. Hér gefur að líta allar umferðarreglur sem í gildi eru hér á landi milli svifvængja- og svifdrekaflugmanna og verður greinin uppfærð ef þurfa þykir í framtíðinni.

Almennt

Þegar flugmenn stefna hvor á annan í sömu hæð, ber báðum að víkja til hægri.  Almennt_vikid_til_haegri
Þegar flugmaður tekur fram úr öðrum hægfleygari, ber að fara fram úr honum hægra megin við hann.  Almennt_framurtaka
Þegar flugmenn fljúga í samleitri stefnu, veitir sá sem er með flugmann sér á hægri hönd honum forgang.  Almennt_haegri_reglan
Flugmaður sem er fyrir neðan, á alltaf réttinn fram yfir þann sem er fyrir ofan.

Hangflug við fjallshrygg (e. ridge soaring)

Þegar flugmenn stefna hvor á annan í sömu hæð, á sá sem hefur fjallið sér á hægri hönd, réttinn.  Hangflug_ridge_on_the_right_in_the_right
Ef flugmaður á hraðfleygum væng vill taka fram úr öðrum hægfleygari skal hann fljúga á milli fjalls og flugmanns sé því við komið.  Hangflug_framurtaka

Hitauppstreymisflug (e. thermalling)

Ef flogið er inn í hitauppstreymisgeira „bólu“ þar sem annar flugmaður er að hringa sig upp fyrir, skal flugmaður sem á eftir kemur fljúga sömu stefnu og hinn fyrri. (Rangsælis eða réttsælis).  Hitauppstreymisflug_stefna_inni_i_bolu
Flugmaður sem er fyrir neðan annan í bólu, og að klifra, á réttinn og sá efri skal víkja komi til að þess þurfi.  Hitauppstreymisflug_rettur_þess_sem_fyrir_nedan_er
Ef flugmaður kemur inn í bólu í sömu hæð og annar sem þegar er að hringa sig upp, skal sá sem á eftir kemur gefa þeim sem fyrir er, forgang til að halda áfram að klifra.  Hitauppstreymisflug_rettur_tess_sem_fyrir_er

Sérstakar kringumstæður

Þegar svifvængjaflugmenn ferðast til annara landa er ráðlegt að kynna sér reglur viðkomandi lands sérstaklega. Oftast nær gilda þessar sömu reglur en oft geta gilt fleiri reglur auk þess sem sumstaðar gilda kurteisisvenjur sem gott er að vera meðvitaður um.

Hvað sem öllum reglum líður skal ávalt hafa skynsemi með í för. Það er lítil huggun í því að hafa verið í rétti þegar slys ber að garði. Við raunverulegar aðstæður geta komið upp tilviki þar sem álitamál er hvor á réttinn séð frá þeim sem í hlut eiga. Einum flugmanni getur t.d. fundist hann nægjanlega hátt yfir hinum eða það langt frá honum, þegar þeir mætast við hrygg, að mætingarreglur eigi ekki við. Hinn flugmaðurinn kann að sjá þetta í öðru ljósi.

Þá er ein óskrifuð regla sem undirrituðum finnst að allir flugmenn ættu að hafa í hávegum; hún er sú að sýna byrjendum sérstaka tillitssemi og skilning á meðan þeir eru að taka sín fyrstu skref í fluginu.

Látum reglurnar þjóna okkur en ekki vera tilefni til óþarfa leiðinda. Langoftast er nóg pláss fyrir okkur öll í loftinu en þegar misbrestur verður á því að farið sé eftir reglum ætti vinsamleg athugasemd að nægja.

Róbert Bragason

Be the first to leave a comment

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.