1. maí mótið : úrslit

Þrátt fyrir frekar erfitt flugveður var 1. maí mótið æsispennandi!

Á 1. maí sjálfan tók Ásta forystuna með glæsilegu 1.4 km flugi (kvenflugmenn félagsins ráku upp fagnaðaróp) og Halldór og Agnar komu fast á hæla hennar: trakkar og fluglýsingar hér

4. maí sat Ásta föst á take-offi (gröndl vandamál ásamt smá stressi eftir síðasta flug sem var óvenju aktívt) á meðan Ása flaug einsog engill í Festarfjalli og tók forskotið með 3.2 km flugi. Og kvenflugmennirnir ráku upp fleiri fagnaðaróp: trakkur hér

Svo kom 5. maí… síðasti dagur móts, síðasti séns að vinna þetta… meirasegja 3 gamaldags drekar sáust á flugi en það voru þeir Sindri sem byrjaði í fyrra og kempurnar Árni og Ebbi. Veðrið var nokkuð erfitt og breytilegt, rok hingað og þangað, stuttir gluggar. Dagurinn byrjaði á því að Agnar jafnaði Ásu á hádegi (og það sljákkaði aðeins í fagnaðarópum kvenna). Svo leit út fyrir að Vífill (sem lærði í fyrra) væri búinn að taka þetta seinnipartinn. En trakkurinn hans Samma laumaði sér inn í lok kvölds: trakkar og fluglýsingar hér

Og svona líta þá lokaniðurstöður út:
1. sæti: Samúel Alexandersson 10.1 km
2. sæti: Vífill Björnsson 5.3 km
3. sæti: Áslaug Rán Einarsdóttir og Agnar Örn Arason 3.2 km

Við óskum öllum keppendum til hamingju með glæsilegan árangur og keppnisskap. Sérstaka athygli vakti þó glókollurinn Vífill með annað sætið þó hann hafi bara lært í fyrra, svona á að gera þetta 🙂

Ljósmyndin er eftir Vífil Björnsson, tekin úr lofti yfir Hafrafelli þar sem sést yfir í hvíta Esjuna. Fleiri myndir frá honum úr mótinu hér.

Almennt um 1. maí mótið
1. maí mótið er fyrsta mót flugsumarsins og er alltaf haldið sjálfan 1. maí (óháð veðri) og þá helgi sem næst fellur 1. maí. Nú bar 1. maí upp í miðri viku og þá ákveður mótanefnd hvor helgin er notuð. Helgin 4. – 5. maí varð fyrir valinu í ár þar sem spáin var skárri.

Menn mega fljúga eins mikið og þeir vilja þessa þrjá daga og samanlögð stig tveggja stigahæstu fluga gilda til úrslita. Fljúga má hvar sem er á Íslandi og flugin mega vera á sama flugstað (þó aðeins annað gildi svo í yfirlandsreiðinni). Stigin eru reiknuð út frá GPS tracklog á www.flightlog.org og því er nauðsynlegt að vera skráður þar ef maður vill vera með.

Fyrsta námskeið sumarsins

Námskeiðið í Reykjavík byrjaði í gær. 16 nýjir nemendur mættu, en það eru þau Ásta, Rúnar, Vésteinn, Halldór, Bjarni, Birkir, Karolina, Reynir, Elías, Davíð, Arnar, Magnús, Snæbjörn, Ingó, Þórður og Viðar. Velkomin í geðveikina krakkar! 🙂

Fundurinn byrjaði á kynningu á náminu, fluginu og hvert öðru. Sumir höfðu verið á leiðinni í loftið í soldinn tíma, aðra hafði dreymt um flug í mörg ár og enn aðrir höfðu smitast í gegnum vini.

Því næst úthlutuðum við nemendum búnað miðað við stærð og þyngd, æfðum hvernig á að festa á sig harnessið (það sem þú situr í og festir þig við vænginn) og fórum svo að fljúga!

This slideshow requires JavaScript.

Fyrstu flugin fara fram með báða fætur á jörðinni og vænginn á lofti, en þannig er hægt að æfa stjórnun vængsins áður en að fjalli kemur, svokallað ‘gröndl’ (groundhandling). Nemendur lærðu að nota bremsurnar og þyngdarfærslu til að fá vænginn til að haldast uppi. Það gekk súper vel, sumir hafa þetta bara í sér einsog þeir hafi aldrei gert annað. Aðrir þurfa aðeins meiri tíma til að melta upplýsingaflæðið og samræma útlimi, en allir ungarnir náðu góðum tökum á grundvallaratriðunum.

Veðrið var fallegt en kalt. Við notuðum sérstaka gröndl-vængi sem eru mun minni en þeir sem við fljúgum venjulega á og sérstaklega gerðir til að æfa nýliða. Uppúr kl. tíu voru nýju ungarnir okkar orðnir soldið tættir og þreyttir og byrjuðu að tínast heim, með bóklegt heimaverkefni í farteskinu.

Og þá er það bara næsta skref í kvöld, ef veður leyfir… stærri vængir og meira gröndl. Hlökkum til að sjá ykkur 🙂