Val á búnaði

Vængur
Bæði vegna öryggis og til að fá hámarks ánægju út úr fluginu er mjög mikilvægt að velja sér rétta stærð og stöðlun á væng. Hvort sem þið ætlið að kaupa notað eða nýtt erum við tiltæk að ráðleggja ykkur með val á búnaði, og það gerum við fyrst og fremst með tilliti til öryggis.
Þyngdarsvið: Framleiðendur gefa upp þyngdarsvið fyrir hvern væng. Þá er átt við svokallað ‘all up weight’; nakta þyngd flugmanns plús allt sem hann flýgur með, þar með talið sjálfan vænginn, varafallhlíf, harness, hjálm, föt, skó, vatn og annað. Þumalputtareglan er að bæta 10-15 kg við sína eigin þyngd. Við mælum með að nemendur velji sér þá stærð af væng þar sem þeir falla sem næst miðju uppgefins þyngdarsviðs. Betra er þó að vera frekar aðeins í efri mörkum en neðri. Í efri mörkum hefurðu betri stjórn á vængnum, í neðri mörkum finnurðu minna fyrir kollöpsum en gætir átt erfiðara með take-off í vindi.

Harness
Það er ekki síður mikilvægt að velja sér rétt harness en það þarf að vera þægilegt, með góða vörn og hannað fyrir byrjendur. Það er líka vert að hugsa út í þyngdina og hvar varafallhlífin er staðsett. Til eru svokölluð ‘reversible’ harness en þá sparast þyngdin af bakpokanum. Reversible harness eru annaðhvort með loftpúðavörn eða engri vörn, passið að taka með vörn ef þið farið í þetta. Venjuleg harness eru bæði til með loftpúða- og svampvörn.

Varafallhlíf
Varafallhlíf er grundvallar öryggisatriði sem enginn ætti að fljúga án. Einsog með vænginn er mikilvægt að velja staðlaða fallhlíf í réttum þyngdarflokki. Varafallhlífar vega allt frá u.þ.b. kílói, og eru yfirleitt dýrari eftir því sem þær eru léttari (tæknilegri efni og hönnun).

Hjálmur
Til eru bæði opnir og lokaðir hjálmar. Lokaðir eru yfirleitt taldir öruggari. Svo eru til hjálmar sem hægt er að hafa bæði opna og lokaða. Sumir vilja nota skíða/bretta hjálma en þeir fást í íþrótta- og útivistarverslunum hérna heima. Sérstaka Paragliding hjálma verður að panta erlendis frá. Aðeins má nota viðurkennda EN966 staðlaða hjálma í keppnum.

Skór
Mælum með að þið fljúgið alltaf í skóm með stífum, háum ökklastuðningi, t.d. gönguskóm. Snúnir ökklar eru með algengari meiðslum í sportinu og má oft koma í veg fyrir það með réttum skóbúnaði.

Hanskar
Stundum getur reynst nauðsynlegt að grípa í línurnar, t.d. í miklum vindi á take-offi, og hanskar eru góð vörn gegn því að skera sig eða brenna á línunum. Gott er að vera í þunnum hönskum sem passa vel svo þeir flækist ekki fyrir og þú haldir góðri tilfinningu fyrir því sem þú ert að gera. Golf hanskar eru upplagðir en einnig fást ágætis ódýrir hanskar á bensínstöðvum.

Annað
Vindmælir: Við mælum með því að þið notið vindmæli, mjög hjálplegt að vita hvað vindurinn er sterkur á take-offi.
GPS, vario, hjálmmyndavél: Mælum með því að láta þessi tæki eiga sig fyrst um sinn og einbeita sér að fluginu.

ATH
Gott er að athuga hvort karabínur fylgi með harnessinu og að speedbar fylgi með vængnum, en það er misjafnt eftir framleiðendum. Ef það fylgir ekki er um að gera að panta það sérstaklega því annars sitjið þið uppi grounded með nýjar græjur.

Hér er góð grein um ýmislegt til að huga að við val á væng: Pat Dower
Og hér er hjálpleg umræða um val á harnessi: Paragliding Forum
Hér er grein sem útskýrir stöðlun vængja: EN classes explained
Hér er markaðstorg fyrir notaðan búnað á Íslandi: Notað Paragliding Stöff
Og hér er góð Paragliding netverslun í Englandi: Flybubble

Við bjóðum uppá góða og örugga byrjendapakka (vængur + harness + varafallhlíf + karabínur og speedbar = allt sem þú þarft til að fljúga) frá BGD og Swing. Innifalið í því er að við tengjum varafallhlífina fyrir þig og hjálpum þér að stilla harnessið. Verðin eru yfirleitt mun betri en fást erlendis.

Við hjálpum þér einnig að velja notaðan búnað.
ATH: Ekki versla af ebay, alibaba eða álíka án þess að fá álit okkar eða annarra fagmanna. Þú getur beinlínis endað með lífshættulegan búnað ef þú velur hann ekki vel.