Leyfis- og skírteinamál svifvængjaflugmanna á Íslandi

Posted on August 18, 2013

Fisfélag Reykjavíkur annast þjálfun svifvængjaflugmanna auk þess að gefa út alþjóðlega viðurkennd hæfnisskírteini fyrir félagsmenn sína. Félagið gerir þetta í krafti stöðu sinnar sem viðurkennt fisfélag skv. Reglugerð um fisflug og aðildar sinnar að FAI (Fédération Aéronautique Internationale) sem það hefur í gegnum aðild sína að Flugmálafélagi Íslands.

Umboðskeðjan

Umbodskedjan

Starfsemi Fisfélags Reykjavíkur heyrir undir Reglugerð um fisflug nr. 780/2006. Félagið er, skv. Þessum lögum, viðurkennt fisfélag af Flugmálastjórn Íslands sem aftur hefur eftirlit með starfsemi slíkra félaga. Reglugerð um fis getur um réttindi og skyldur viðurkenndra fisfélaga og þar kemur skýrt fram að meðal réttinda er að standa að, skipuleggja og tilnefna umsjónaraðila kennslu og þjálfunar á vegum félagsins.

Til hliðar við þetta samband Fisfélags Reykjavíkur og Flugmálastjórnar liggur svo aðild FR að FAI í gegnum Flugmálafélag Íslands. FAI var stofnað árið 1905 og starfar með flugmálafélögum aðildarlanda sinna en er sjálfstætt og óháð ákveðnu ríki. FAI hefur yfirstjórn og eftirlit með öllum keppnum og metum sem eiga að öðlast alþjóðlega viðurkenningu í flugíþróttum auk þess að vinna að framþróun áhugamannaflugs um allan heim. Það er tvennt sem Fisfélag Reykjavíkur sækir beint til FAI þegar kemur að kennslu og útgáfu hæfnisskírteina flugmanna sinna:

Í fyrsta lagi er það hinn alþjóðlegi fimm stiga Parapro þjálfunarstaðall FAI sem kennsla félagsins er byggð á. Í honum er getið um bæði bóklegt og verklegt efni sem mælst er til að nemendur fái þjálfun í.

Í öðru lagi er það útgáfa alþjóðlegra IPPI hæfnisskírteina (International Pilot Proficiency Information) frá FAI fyrir félagsmenn sína. IPPI skírteinin voru fyrst kynnt til sögunnar árið 1992 og eru nú viðurkennd um stærstan hluta hins sviffljúgandi heims. Lista yfir lönd sem viðurkenna IPPI hæfnisskírteini má finna á vef FAI en á þeim lista eru m.a. lönd eins og Ástralía, Bretland, Frakkland, Þýskaland, Ítalía, Noregur, Póland, Sviss og Suður Afríka svo aðeins nokkur séu nefnd.

Útgáfa IPPI skírteina á Íslandi

IPPI_CardIPPI_Card_-_back

Á grundvelli þess sem ofan greinir, gefur Fisfélag Reykjavíkur út IPPI skírteini fyrir félaga sína en félagið er sem stendur eini aðilinn á Íslandis sem fengið getur óútfyllt IPPI skírteini hjá FAI. Þessi skírteini kosta peninga og þessvegna eru skírteinin ekki gefin út til félagsmanna nema þeir óski þess.

Þegar byrjendur taka þátt í byrjendanámskeiði á vegum félagsins fylgja þeir Parapro kennsluáætlun. Þeir taka fyrsta stig parapro þjálfunaráætlunarinnar undir beinni handleiðslu kennara en ljúka svo Parapro 2 á eigin vegum og á eigin búnaði. Eftir að hafa lokið því geta þeir fengið IPPI skírteini sem staðfestir PP2 og eru þá fyrst útskrifaðir með stöðu „byrjenda“. M.ö.o; nemandi sem klárar námskeið en heldur ekki áfram, útskrifast ekki sem PP2 og fær því ekki skírteini því til staðfestingar.

Félagsmenn geta hvenær sem er óskað eftir því að félagið gefi út IPPI skírteini til staðfestingar á reynslu sinni en algengast er að þeir geri það þegar þeir sækja námskeið eða taka þátt í keppnum erlendis enda þarf hvergi að framvísa svona skírteini hér á landi. Það er á ábyrgð flugmanna sjálfra að meta reynslu sína m.t.t. Parapro staðalsins. Félagið er ekki í nokkurri aðstöðu til að leggja sjálfstætt mat á það hvort flugmaður hafi raunverulega öðlast þá reynslu sem hann segist hafa gert eftir að hann útskrifast af byrjendanámskeiði en vandséð er hversvegna flugmenn ættu yfir höfuð að vilja svindla á sjálfum sér með því að ýkja reynslu sína.

Niðurstaða

Félagsmenn í Fisfélagi Reykjavíkur sem hafa fengið viðurkennda þjálfun og öðlast reynslu þá sem kveðið er á um í Parapro staðlinum, eru a.m.k. jafn vel í sveit settir og flugmenn viðurkenndra flugklúbba annara landa sem viðurkenna IPPI kerfi FAI. Flugmenn sem ekki eru í Fisfélagi Reykjavíkur eða öðru viðurkenndu fisfélagi geta hinsvegar ekki verið með gilt hæfnisskírteini.

Þó er það svo að eigendum flugstaða er það í sjálfsvald sett hvaða kröfur þeir setja til flugs á svæðum sínum. Það er því til í dæminu að á flugstað í landi sem annars viðurkennir IPPI hæfnisskírteinin, séu gerðar frekari kröfur um leyfi eða hæfnisskírteini á grundvelli eignarréttarins.

Róbert Bragason

Ítarefni:

Reglugerð um fisflug
Parapro staðallinn
FAI / IPPI cards

Be the first to leave a comment

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.